Það er vel við hæfi að Kópavogsdagar, menningarhátíð bæjarins, fari fram á fyrstu vordögum ársins. Á sama tíma og náttúran fer úr vetrarbúningnum og breytir um lit mun menningin blómstra sem aldrei fyrr.

Ljúfir tónar munu berast frá menningartorfu Kópavogsbúa, ekki bara úr Salnum, heldur einnig Tónlistarsafni Íslands og Gerðarsafni. Dansinn mun duna, leikir, spuni og leiklist taka völdin, vegglistaverk fæðast og einmana tré lifna við.

Ljóð munu fljóta í sundlaugum bæjarins, kórsöngur hljóma frá verslunarkjörnum og síðast en ekki síst verður sannað í eitt skipti fyrir öll að pönkið lifir og það góðu lífi í Kópavogi. Njótið vel!

VIÐBURÐIR Á KÓPAVOGSDÖGUM

FRÉTTIR OG TILKYNNINGAR

PÖNKIÐ LIFIR

Á Spot mæta tónlistarmenn sem tóku þátt í upphafi pönksins á Bretlandi og á Íslandi. Tónleikarnir verða fimmtudagskvöldið 8. maí og hefjast klukkan 21:00. Þar spila Q4U, Fræbbblarnir og Glen Matlock, bassaleikari The Sex Pistols.

Í Molann mæta svo ungar, efnilegar, skemmtilegar og hljómsveitir – ásamt einni eldri. Þeir hljómleikar verða laugardaginn 10. maí klukkan 14:00. Þar spila Fjöltengi, Fræbbblarnir, PungSig, Skerðing og Dossbaradjamm.

LJÓÐ Í SUNDI

Ljóðlistin verður í hávegum höfð á Kópavogsdögum. Ljóð fást gefins á Hálsatorgi og í Bókasafni Kópavogs, ljóð verður málað á vegg, þau verða hengd upp í strætó og látin fljóta í sundlaugum bæjarins. Þannig munu ljóðin mæta gestum hátíðarinnar á ólíklegustu stöðum. Ljóðin sem verða í strætó og í sundlaugunum eru verðlaunaljóð. Höfundar þeirra urðu í efstu sætum í ljóðasamkeppni Ljóðstafs Jóns úr Vör og ljóðasamkeppni grunnskólanna fyrr á þessu ári.

ÓMÁLUÐ MYND

Hin unga listakona Kristín Þorláksdóttir mun á Kópavogsdögum búa til stórt vegglistaverk á gafl húsnæðisins að Hamraborg 9. Verkið heitir „Ómáluð mynd“ og er tilvísun í ljóð Kópavogsskáldsins Jóns úr Vör sem ber sama heiti. „Tilgangur verksins er m.a. að setja svip á menningarsamfélag Kópavogs,“ segir Kristín. „En ég er einnig að brúa bil á milli kynslóða. Tungumál vegglistar, sem höfðar sterkt til yngri kynslóða, mætir sögulegri ljóðlist sem hefur sett mikinn svip á listasenu Kópavogs.“ Verkið verður tilbúið í lok hátíðarinnar.

#kopavogsdagar á Instagram


UM KÓPAVOGSDAGA

Kópavogsdagar, menningarhátíð Kópavogs, eru haldnir í ellefta sinn dagana 8. til 11. maí. Kópavogur hefur um árabil stutt vel við menningarlífið í bænum og er markmiðið Kópavogsdaga að gefa bæjarbúum færi á að njóta afrakstur þess á eins konar uppskeruhátíð.

Hátíðin í ár er enn glæsilegri en undanfarin ár. Viðburðir hennar eru af ýmsum toga og sýna vel hvað menningarlífið í Kópavogi er fjölbreytilegt. Fjöldi listamanna tekur þátt í Kópavogsdögum en auglýst var eftir þátttöku í hátíðinni við góðar undirtektir.

Kópavogsdagar breiða sig vítt um bæinn að þessu sinni. Í Hamraborginni verður afhjúpað nýtt vegglistaverk og gjörningurinn Líf, myndlistamenn Kópavogs sýna í Auðbrekku, sögufélagið leiðir áhugasama um söguslóðir í Vesturbæ Kópavogs og ævintýraleikrit fyrir börn verður sýnt í Bókasafni Kópavogs. Þá er fjöldi tónleika á dagskrá og þar kennir ýmissa gras, tvennir pönktónleikar eru á dagskrá en líka kórtónleikar, djass, gítarleikur og sönglög.

Hér er stiklað á stóru og ég hvet bæjarbúa og aðra áhugasama til þess að kynna sér dagskrá Kópavogsdaga. Framundan eru skemmtilegir dagar í Kópavogi þar sem allir ættu að finna sér eitthvað við sitt hæfi.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs

TENGILIÐIR FYRIR FJÖLMIÐLA

Tengiliðir fyrir fjölmiðla eru: Arna Schram, forstöðumaður Listhúss Kópavogsbæjar, í síma: 6960663. Netfangið: arnaschram (hjá)kopavogur.is.

Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar, í síma: 8217506. Netfangið: sigridur.bjorg.tomasdottir (hjá) kopavogur.is